Þetta erindi er einnig að finna á doktor.is undir málaflokknum líkami og næring.

Í starfi mínu sem heilsunuddari hef ég átt vikuleg samskipti við marga nuddþega í langan tíma. Þeir hafa komið til meðferðar á margvíslegum forsendum og allir eiga þeir sameiginlegar væntingar um betri líðan. Stundum er hægt að hjálpa nuddþegum að fá einhverja bót á stuttum tíma, stundum þarf lengri tíma til.

Verkir og vanlíðan er oft afleiðing af löngu ferli og ekki hægt að ætlast til að hægt sé að ná varanlegum árangri á með þau vandamál á einum tíma. Sumir eru að glíma við erfiða stoðkerfisverki, t.d. vegna rangrar líkamsbeitingar, aðallega frá beinagrindavöðvum og nokkrir hafa reynt margt annað til lækningar áður en þeir koma í heilsunudd. Margir eru haldnir því sem í daglegu tali kallast vöðvabólga, en það hefur orðið að nokkurs konar samheiti fyrir stífleika, bólgur og eymsli í vöðvum.

Oft segi ég nuddþegum mínum að ég sé ekki að reyna að lækna fólk, heldur hjálpa því að skynja betur heilbrigði sitt. Ég vinn út frá þeirri meginforsendu að hver og einn verði að taka ábyrgð á sínu eigin heilbrigði og meta hvað hann hafi út úr því að fara í heilsunudd. Heilsunudd hefur ákveðin markmið og forsendur en einstaklingar hafa ólíkar þarfir og væntingar, þannig að það sem er hjálplegt einum þarf ekki að vera það fyrir aðra. Mismunandi leiðir geta gagnast til þess að styrkja og viðhalda heilbrigði. Heilsunudd er ein þeirra.

Hvað er heilbrigði?

Ef ég segði að heilbrigði sé okkur flestum gefið frá upphafi lífs okkar, er ég viss um að ekki væru því allir sammála. Margir hafa vanist að hugsa um heilbrigði sem línulegt fyrirbæri þar sem heilbrigði og óheilbrigði eru andstæður og þar á milli ferðumst við. Þegar við tölum um heilbrigði eru flestir að tala um heilbrigði líkama en ekki huga eða óáþreifanlegri fyrirbæra, svo sem anda eða sálar. Það eru ekki heldur margir sem skynja að það sé tenging milli líkamlegs og huglægs heilbrigðis.

Mörg okkar þekkja hvernig streita sem er í eðli sínu huglægur þáttur, ef við viljum nota þessa aðgreiningu, birtist sem spenna í vöðvum og kemur þannig fram í líkamanum.

Við eigum okkur nokkur spakmæli í íslenskri tungu, s.s. heilbrigð sál í hraustum líkama, ofl. Er það hraustur líkami sem hefur áhrif á heilbrigðan hugsunarhátt eða öfugt. Hvort kom á undan eggið eða hænan?

Kannski er sambandi hugar og líkama best lýst með því að tala um gagnvirkt (dialectic) samband eða samvirkt. Það þýðir að hvort hefur áhrif á annað. Það er samofið. Ég hlustaði á viðtal við lækni í útvarpi, þar sem hann taldi að engin af hinum svokölluðu náttúrulyfjum gagnist við algengum sjúkdómum sem við erum að kljást við, svo sem flensu, kvefi ofl. En það sem mér þótti merkilegt var að hann talaði um gildi þess að vera jákvæður, glaður og mæta lífinu brosandi. Þetta var læknir af hinum svokallaða gamla skóla, en hann hafði í sínu langa starfi sem læknir fundið gildi þess að vera glaður og jákvæður. Það hefur styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið að vera glaður og jákvæður.

Það eru tengsl milli huga og líkama og ekki úr vegi að tala um tvær hliðar á sama peningi. Heilbrigð jákvæð hugsun er eitthvað sem hægt er að velja sér að vissu marki. En það er ekki alltaf auðvelt. Við höfum tilfinningar, þær birtast í huganum og geta tekið alveg yfir allt rými sem þar virðist vera. Þá finnst okkur sem líf okkar sé bara þessar tilfinningar eða sú saga sem tengist þeim tilfinningum. En sem betur fer er það ekki svo. Við höfum skynjun, tilfinningar og hugsanir, en það er ekki það sem við erum. Við erum meira en það eða minna eftir því hvernig á það er litið. Að skynja að svo sé er hluti þess að vera í tengslum við sitt heilbrigði. Næm líkamsvitund sem er í raun heilbrigt samband hugar og líkama gegnir lykilatriði í því sambandi.

Mismunandi nuddaðferðir

Mismunandi nuddaðferðir hafa verið þróaðar til þess að vinna með ólíka þætti líkamskerfa mannsins, með mismunandi markmið í huga, eins og klassískt heilsunudd (stundum einnig kallað sænskt vöðvanudd), heildrænt nudd, svæðanudd, sogæðanudd ofl. Það sem aðgreinir mismunandi aðferðir er að vissu leyti mismunandi tækni en líka þau markmið sem við setjum okkur með heilsunuddinu.

Heilsunudd miðar að því að hafa áhrif á stoðkerfi, taugakerfi, blóðrás, sogæðakerfi, öndun, húð ofl. Aðferðirnar eru ólíkar eftir því hvar aðaláherslan liggur. Stundum eru aðferðir keimlíkar en með ólíkum nöfnum og mann rennir í grun um að það sé skyldara þörf höfundar aðferðarinnar fyrir viðurkenningu en þörf nuddgreinarinnar fyrir nýja meðhöndlunaraðferð. Það má kannski spyrja sig í þessu samhengi, hvenær aðferð er orðin svo ólík öðrum að það sé hjálplegt að tala um nýja aðferð. Getum við talað um eitt nudd með ólíkum útfærslum?

Ég tel að einföld aðgreining aðferða sé hjálpleg og það sé hægt að sýna fram á það með því að skoða betur markmið með heilsunuddi.

Markmið heilsunudds

Klassískt heilsunudd er það nudd kallað hér á Íslandi, sem fólk á venjulega við þegar það talar um heilsunudd. Markmið með slíku heilsunuddi eru að mýkja vöðva með fjölbreyttum strokum og hnoðhreyfingum sem vinna í þágu betri útskilnaðs úrgangsefna. Að koma meiri og betri hreyfingu á blóðflæði myndi lýsa því best.

Auk þessa eru slökunaráhrif góðrar nuddmeðferðar óumdeild flestum sem hana hafa þegið. Það að gefa sér klukkustund í notalegu umhverfi, liggjandi á bekk með slökun að markmiði er ekki lítils virði sem mótvægi gegn spenntum vöðvum.

Spenna í vöðvum hindrar blóðflæði og veldur því að súrefni berst ekki til vöðva í þeim mæli sem þeir þurfa á að halda. Á sama hátt er útskilnaður úrgangsefna sem verða til við starf vöðva ekki eins virkur ef þrengt er að blóðrás á þennan hátt. Ég hef heyrt sagt að u.þ.b. 70% sjúkdóma séu streitutengdir á einn eða annan hátt. Ekki veit ég hvernig það er metið en ef það er rétt þá er heilsunudd góð forvörn gegn sjúkdómum.

Vellíðan er í eðli sínu útvíkkandi og slakandi en vanlíðan hefur í för með sér herping eða samdrátt. Meiri vellíðan ætti því að skila slakari og þar með starfhæfari vöðvum.

Eitt er það svið innan nuddmeðferðar sem hefur fengið aukna athygli á undanförnum árum og það er triggerpunktameðferð eða viðbragðspunktameðferð eins og hún er stundum nefnd á íslensku. Þessi aukna athygli er bæði vegna áhrifa meðferðarinnar, en einnig vegna rannsókna vísindamanna á tíðni triggerpunkta í vöðvum.

Viðbragðspunktameðferð

Upphaf og þróun viðbragðspunktameðferðar má þakka starfi Dr. Janet Travell (1901 – 1997). Hún varð þekkt í Bandaríkjunum á sínum tíma þegar hún meðhöndlaði John F. Kennedy, sem þá var ungur þingmaður og hafði átt við þrálát bakvandamál að stríða. Bakvandamál þingmannsins tengdust skurðaðgerð sem hann hafði farið í vegna meiðsla sem hann hlaut í heimsstyrjöldinni síðari. Þegar Kennedy var kjörinn forseti varð Dr. Travell skipaður sérstakur læknir forsetans og varð fyrsta konan til að gegna því embætti.

Eftir að hún lét af störfum sem forsetalæknir var hún virk í kennslu, skrifaði bækur og flutti fyrirlestra um gjörvöll Bandaríkin. Hún ritaði síðar ásamt samstarfsmanni sínum David Simons verk sem heitir: ,,Myofacial pain and disfunction: The trigger point manual. Í fyrra bindinu sem kom út árið 1983 kortleggja þau efri hluta líkamans með tilliti til leiðniverkja sem má rekja til þessara svokölluðu viðbragðspunkta. Seinna bindið, sem kortleggur neðri hluta líkamans, kom út árið 1992 en þá var Dr. Travell orðin rúmlega níræð.

Þessir viðbragðspunktar sem þarna eru kortlagðir hafa áhrif á starfhæfni vöðva og þeir leiða verki, oft til nærliggjandi svæða. Það þýðir að ekki er alltaf hægt að meðhöndla verki með því að vinna á vöðvum nákvæmlega þar sem verkina er að finna heldur þarf að rekja sig áfram með kortum sem byggja á vinnu Travell og Simons, til að finna þá punkta sem verkjunum valda.

Þessir punktar eru í nuddmeðferð meðhöndlaðir með því að brjóta upp samgróninga sem hafa möguleg áhrif á taugaenda, með þreyfingu stífra vöðvaþráða, nuddi, hitameðferð og teygjum.
Þessi meðferð er markviss og áhrifarík við verkjum í vöðvum.

Að lokum.

Í upphafi varpaði ég fram þeirri spurningu hvort þú ættir erindi við heilsunuddara. Ef þú ert ein eða einn af þeim sem býr við stöðuga verki frá vöðvum eða færð af og til erfiðan höfuðverk þá getur verið að viðbragðspunktameðferð eða slökunarmáttur annara nuddaðferða geti hjálpað. Ef þú ert með bjúg eða átt í erfiðleikum með vatnslosun þá getur verið að sogæðanudd geti hjálpað þér. Ef þú ert með stífa og stutta vöðva getur verið að nuddmeðferð með blandi af teygjum geti hjálpað þér.

Þá má einnig spyrja hvort verkir eða vandamál þurfi að vera til staðar til þess að erindi til heilsunuddara sé réttlætanlegt. Ég tel að svo sé ekki. Gott heilsunudd með góðri blóðrásarörvun, mýkingu vöðva og slökun að leiðarljósi er öflug forvörn verkja og sjúkdóma. Aukin líkamsvitund, regluleg slökun, góð heilbrigð snerting og mýking vöðva virkar sem næring fyrir líkama og sál. Sumir fara með bílinn sinn reglulega í skoðun og lenda þannig síður í stórtjóni þegar eitthvað gefur sig sem hefur áhrif á gangverk heildarinnar.

Sama má hugsa sér með mannslíkamann. Heilbrigðir lífshættir, regluleg hófleg hreyfing, jákvæðni og gleði, slökun og nudd eru allt þættir sem styrkja ónæmiskerfið og byrgja brunninn áður enn fólk fellur ofan í hyldýpi verkja og vanlíðunar. Regluleg heimsókn til heilsunuddara getur verið hluti af
heilbrigðum lífsstíl, en það á líka við margt annað.