Heilsunudd (e. therapeutic massage) er regnhlífarheiti yfir fjölbreyttar nuddaðferðir sem heilsunuddarar nota til að meðhöndla skjólstæðinga sína. Meðal þeirra er t.d. klassískt nudd, svæðanudd, heildrænt nudd, triggerpunktameðferð, sogæðanudd, djúpvefjanudd, íþróttanudd, vefjalosun og höfuðbeina- & spjaldhryggjarmeðferð. Heilsunudd er því afar fjölþætt og yfirgripsmikið hugtak og eru heilsunuddarar með stóra verkfærakistu af þekkingu og reynslu til að geta veitt einstaklingsmiðaða og sérsnídda nuddmeðferð fyrir hvern og einn skjólstæðing ásamt því að geta ráðlagt um heilbrigðan lífsstíl, líkamsbeitingu og aðrar fyrirbyggjandi aðferðir til að viðhalda góðri heilsu.

Heilsunudd 1

Nudd hefur margvísleg góð áhrif á líkamann; það mýkir vöðva og hvetur til endurheimtar, eykur hreyfigetu líkamans, hjálpar til við losun úrgangsefna, örvar blóðflæði og súrefnisflæði, gefur góða slökun og streitulosun, er endurnærandi og jafnvægisstillandi. Heilsunudd hjálpar til við að ná og viðhalda góðri heilsu og er áhrifarík viðbót við heilsurækt af öllu tagi! Eftirfarandi er útskýring á nokkrum nuddmeðferðum sem heilsunuddarar nota.

KLASSÍSKT NUDD er almennt vöðvanudd þar sem leitast er við að mýkja stífa vöðva og vöðvafestur, draga úr spennu og þreytuverkjum, örva blóðrás og auka almenna vellíðan nuddþegans. Ýmist er unnið með heilnudd yfir allan líkamann og jafnvel tekin fyrir áherslusvæði sem þurfa sérstaka athygli, eða partanudd þar sem eingöngu er tekinn ákveðinn líkamspartur t.d. bak og axlir. Þrýstingur og dýpt stroka fer eftir þörfum og óskum nuddþegans. 

HEILDRÆNT NUDD gengur út frá því að hugur, líkami og sál sé ein heild, það er ekki bundið ákveðnum nuddformum heldur er þörfum nuddþega mætt hverju sinni. Nuddarinn getur nýtt hin ýmsu meðferðarform í heildrænu nuddi en aðaláherslan er á slökun, flæði, tengingu og endurnæringu á líkama og sál.

TRIGGERPUNKTAMEÐFERÐ er markviss og áhrifarík við verkjum sem orsakast af litlum hnúðum sem geta myndast í vöðvum við langvarandi álag. Triggerpunktur getur leitt til sársauka til nær- og fjærliggjandi svæða og hafa þessi svæði verið nákvæmlega kortlögð. Triggerpunktameðferð er mjög oft notuð í bland við aðrar nuddaðferðir. 

SVÆÐANUDD er nuddform sem byggir á þeirri kenningu að í fótum séu svæði og punktar sem tilheyra ákveðnum líkamspörtum, líffærum og líffærakerfum. Jafnframt er unnið með orkubrautir í svæðanuddi og er markmið þess að stuðla að andlegu og líkamlegu jafnvægi og vellíðan. Í svæðanuddi eru eingöngu fætur nuddaðir en einnig er algengt að svæðanudd sé notað í bland með öðrum nuddformum. 

ÍÞRÓTTANUDD er kröftugt nudd sem sérhæft er fyrir íþróttafólk, hvort sem er keppnisfólk eða þá sem æfa sér til heilsubótar. Áhersla er lögð á að mýkja stífa vöðva og vöðvafestur, teygja á styttum vöðvum og auka getu vöðva og sina til að þola álag. Íþróttanudd hjálpar líkamanum við endurheimt og minnkar líkur á álagsmeiðslum. 

SOGÆÐANUDD er nákvæmt kerfi nuddstroka þar sem áhersla er lögð á að styrkja sogæðakerfið og auka flæði og jafnvægi í líkamanum. Notaðar eru léttar nuddstrokur sem færa sogæðavökva að næsta eitlakerfi til hreinsunar. Sogæðanudd er mild en afar áhrifarík nuddmeðferð sem hraðar hreinsun úrgangsefna úr líkamanum, vinnur gegn óæskilegri vökvasöfnun og gefur djúpa slökun. 

VEFJALOSUN snýst um losun og og lengingu í bandvefnum sem umlykur og styður alla vefi líkamans. Nuddarinn vinnur með bæði grynnri og dýpri lög bandvefjarins og losar um stífleika og samgróninga og eykur flæði og hreyfanleika í vefjum líkamans. Vefjalosun er yfirleitt blandað inn í aðrar nuddmeðferðir.