1.      
Félagsmaður skuldbindur sig til að gæta fyllstu þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum hvað varðar öll þau mál sem hann verður áskynja í starfi. Þagnarskyldan helst alla ævi. Undantekningu frá þagnaskyldu má einungis gera með leyfi skjólstæðings eða samkvæmt lagaboði. Allar skýrslur um skjólstæðinga skulu geymdar þar sem óviðkomandi kemst ekki í þær.      

 

 

2.      
Félagsmaður beitir þeim viðurkenndu aðferðum sem hann hefur menntað sig til við meðferð skjólstæðinga sinna og gefur engin loforð um lækningu. Þá ber honum að vísa skjólstæðingi sínum til annarra fagmanna ef hann telur að það sé skjólstæðingi hans fyrir bestu.      

 

 

3.      

Ekki má neita neinum um nuddþjónustu vegna litarháttar, sjúkdóma, fötlunar, þjóðernis, aldurs, kyns, kynhneigðar, trúar, stjórnmálaskoðana, þjóðfélagsstöðu eða annars konar fordóma.

 

Félagsmanni er þó heimilt að neita skjólstæðingi um þjónustu telji hann öryggi sínu ógnað. Undir það getur fallið t.a.m. smitsjúkdómar eða telji félagsmaður að skjólstæðingur sé undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

     

 

 

4.      
Félagsmaður skal ávallt sýna skjólstæðingi sínum virðingu við störf sín og gæta þess að særa á engan hátt blygðunarkennd skjólstæðinga sinna né eiga við þá náið samband. Þá skal félagsmaður ekki notfæra sér tengsl við skjólstæðinga sína, sér til framdráttar.      

5.

 

 

 

Forráðamönnum barns yngri en 18 ára skal heimilað að vera viðstaddir meðferð barnsins óski þeir þess.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

6.

 

 

 

Félagsmanni ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni, kynna sér nýjungar er varða starfið og varðveita hæfni sína með námi sem kann að vera í boði hverju sinni. Hann skal haga svo störfum sínum að hann sé stétt sinni til sóma. 

 

 

 

     

    7.       
    Hvar sem félagsmaður kemur fram í nafni menntunar sinnar ber hann orðstír sinn og stéttar sinnar fyrir brjósti. Þetta á við um alla framsetningu, jafnt í ræðu og riti.      

     

     

    8.      
    Félagsmaður skal ekki veita meðferð undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra efna sem slæva dómgreind hans og athygli.      

     

     

    9.            
    Þegar meðferð er veitt skal félagsmaður vera hreinn og snyrtilegur til fara. Hann skal gæta hreinlætis í hvívetna og tryggja að húsnæði og búnaður séu hrein og í góðu ástandi.            

     

     

    10.      
    Félagsmaður virðir fagþekkingu, færni, skyldur og jákvæð samskipti við aðra innan eigin stéttar og við þá sem tilheyra öðrum fagstéttum.      

     

     

    11.       
    Verði félagsmaður var við að annar félagsmaður hafi brotið gegn siðareglum þessum, ber honum að ræða það við viðkomandi eða yfirmann hans. Beri ábendingar og/eða viðræður ekki árangur skal óskað eftir að siðanefnd FÍHN taki málið til umfjöllunar.      

     

     

     

    Ég undirrituð/aður skuldbind mig sem aðili að Félagi íslenskra heilsunuddara að starfa samkvæmt siðareglum félagsins

     

    ________________________________________________

     

    – Ákvæði til bráðabirgða og skýringa: Nafni félagsins var breytt á aðalfundi 2004 úr Félagi Íslenskra Nuddara, F.Í.N., í Félag íslenskra heilsunuddara, F.Í.H.N. Þau réttindi, sem félagsmenn höfðu aflað sér í F.Í.N. breytast í engu við breytingu á nafni félagsins.

    Hafðu samband.

    Netfang

    fihn@fihn.is

    Sími

    8459343

    Skrifstofa

    Hamraborg 1, 5.hæð
    200 Kópavogur