Fréttavaktin á Hringbraut tók viðtal við Reginn Unason, formann FÍHN, þann 13.sept 2021 vegna pistils sem hann hafði birt á Facebooksíðu félagsins um mikilvægasta málefni nuddara og nuddþega á Íslandi sem er vöntun á lögverndun nuddara.
Linkur á fréttina er hér, viðtalið byrjar 15:20.
Pistillinn sem um ræðir er hér fyrir neðan ásamt öðrum pistli frá Reginn um sama málefni.
Pistill birtur á Facebooksíðu FÍHN þann 8. september 2021
Opið bréf til allra þeirra sem eru í framboði til Alþingis!
Kæru Frambjóðendur til Alþingis.
Mig langar að vekja athygli ykkar á málefnum nuddara og nuddþega á Íslandi.
Á Íslandi er staðreyndin sú að hver sem er getur stofnað nuddstofu og starfað sem nuddari án þess að hafa til þess neina tilskylda menntun.
Það eru enginn skilyrði um lágmarks menntun þegar það snýr að því að meðhöndla manneskju sem leitar til nuddara vegna verkja og annara heilbrigðisvandamála og því þarf að breyta.
Ég veit um dæmi þar sem að fólk hefur farið á fimm daga námskeið í nuddi, opnar síðan sinn eigin rekstur/nuddstofu. Þetta sama fimm daga námskeið er kennt á Íslandi og þeir sem hafa farið á það hafa opnað stofur víðsvegar um landið án nokkurs eftirlits.
Einnig eru dæmi um það að dæmdir ofbeldismenn séu að bjóða upp á nudd eða aðra meðhöndlun í herbergjum heima hjá sér eða leigja aðstöðu annars staðar.
Fólk sem fer til þessara einstaklinga er algjörlega óvarið og það er ótækt að ætlast til þess að fólk finni út úr því sjálft hver sé menntaður fagaðila og hver ekki.
Síðastliðinn janúar var maður sem rekið hefur meðferðarstofu og boðið þar m.a. upp á nudd, dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum sem leituðu til hans í meðhöndlun, Í dómnum yfir honum kemur fram að maðurinn hefur litla sem enga menntun til þess að meðhöndla fólk. Þessi maður er enn starfandi, hann breytti nafninu á meðferðarstofu sinni og er enn að meðhöndla fólk og þar með talið að nudda. Hvar er eftirlitið ?
Einnig er það svo að þegar einstaklingur sækir um starfsleyfi til að opna og reka nuddstofu þá þarf að uppfylla örfáar kröfur frá heilbrigðiseftirliti þess sveitarfélag sem við á. ( s.s. að vera með sturtur, handlaugar, klósett fyrir hreyfihamlaða o.s.frv) og þá eru allir vegir færir. Aldrei í ferlinu er farið fram á það að þú sannir að þú sért menntaður nuddari og ekki einu sinni farið fram á að þú hafir hreint sakavottorð!
Þetta veit ég fyrir víst þar sem ég opnaði mína eigin stofu í fyrra og var aldrei spurður þessarar einföldu spurningar “ertu menntaður nuddari ? Þrátt fyrir að hafa verið í miklum samskiptum við heilbrigðiseftirlitið, vinnueftirlitið, byggingareftirlit og eldvarnaeftirlitið til að uppfylla öll þeirra skilyrði áður en ég mátti opna.
Þrátt fyrir þetta er staðreyndin sú að á Íslandi stendur til boða mjög gott nám í nuddi á Heilsunuddbraut, Heilbrigðisskólans í Ármúla og einnig í Framhaldsskólanum á Húsavík. Þetta er nám sem er rekið af íslenska ríkinu og spannar um 3- 4 ár. Önnur Norðurlönd öfunda okkur af okkar grunnnámi til Heilsunuddara, þetta veit ég fyrir víst þar sem ég sit sem fulltrúi Íslands í samstarfi nuddara á Norðurlöndum
Það er því með öllu ólíðandi að staðan sé sú að hver sem er geti starfað sem nuddari og rekið nuddstofu án nokkurar menntunar eða eftirlits. Um er að ræða mjög sérhæft og mjög náið starf þar sem nuddþeginn er í mjög viðkvæmri aðstöðu gagnvart nuddara og sé það traust brotið þá situr fólk uppi með sár á sálinni sem mögulega gróa aldrei! Það er því mikið í húfi og nokkuð víst að þeir sem sækja þjónustu hjá slíkum einstaklingum séu algerlega óvarðir gegn óvönduðum vinnubrögðum eða eins og dæmin sanna ofbeldi.
Að lokum vil ég benda á það að dæmi eru um að nuddstofur hafi komið við sögu í mansalsmálum. Við í stjórn FÍHN (Félag íslenskra heilsunuddara) höfum fengið ábendingar um það að fólki hafi verið boðið kynlíf gegn gjaldi á nuddstofum.
Ég vona að þið látið ykkur þessi mál varða, og á næsta kjörtímabili verði þessu breytt og eingöngu menntað fólk megi vinna með fólk í eins nánum aðstæðum og nudd er.
Með kveðju og ósk um svar og samstarf á komandi kjörtímabili við að breyta þessu.
Reginn F Unason
Heilsunuddari
Formaður Félags Íslenskra Heilsunuddara.
Pistill birtur á Facebook síðu FÍHN þann 8. nóvember 2021
Góða kvöldið hérna er pistil formanns FÍHN varðandi málefni nuddara og nuddþega á Íslandi, þætti vænt um að fólk myndi lesa hann og deila honum áfram,
FÍHN mun svo að senda þetta á alla þingflokka og þingmenn þegar komið er í ljós hverjir munu sitja á þingi
Ég skrifaði pistil varðandi nudd 7. september sl. Síðan þá hef ég talað við marga um málefni nuddara og nuddþega. Í þessum samtölum hefur komið í ljós að mjög margir líta á nudd sem iðngrein en það er einfaldlega rangt.
Nudd er heilbrigðisþjónusta!
Máli mínu til stuðnings vil ég benda á að sjúkranudd er löggild heilbrigðisgrein skv. reglugerð nr 204/1987. Sjúkranuddarar eru þeir sem lært hafa nudd í viðurkenndum skólum erlendis, bæði fyrir og eftir að farið var að kenna nudd í íslenskum skólum.
Heilsunudd er kennt á heilsunuddbraut heilbrigðisskólans sem starfræktur er í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Í heilbrigðisskólanum eru 6 námsbrautir þar sem kenndar er heilbrigðisgreinar og a.m.k. 3 þeirra eru löggildar. Einnig er heilsunuddbraut í Framhaldsskólanum á Húsavík.
Þannig að sjúkranuddari er löggiltur heilbrigðisstarfsmaður og heilsunudd er kennt sem heilbrigðisstarfsemi en nudd er ekki lögverndað. Þannig getur hver sem er unnið sem nuddari án þess að hafa lokið heilsunuddaranámi, sjúkranuddaranámi eða nokkru öðru námi ef út í það er farið.
Þetta er því miður staðan í dag og þetta býður þeirri hættu heim að í skjóli þess að kalla vinnuna sína nudd getur ómenntað eða lítið menntað fólk beinlínis beitt annað fólk ofbeldi, líkamlegu og kynferðislegu eins og nýleg dómsmál sanna og það sem meira er að þrátt fyrir það að einstaklingar sem starfa við nudd án menntunar hafi verið dæmdir til fangelsisvistar fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn viðskiptavinum sínum þá geta þeir haldið áfram starfsemi sinni án nokkurs eftirlits.
Ef íslenska ríkið myndi lögvernda nudd og gera kröfur um ákveðna menntun og hreint sakavottorð áður en fólk fengi leyfi til þess að starfa sem nuddari væri hægt að tryggja betur öryggi þeirra sem vilja kaupa sér þjónustu nuddara og að ómenntaðir aðilar væru ekki að vinna sem slíkir
Það væri upplagt að nota það nám sem er nú þegar til staðar innan íslenska menntakerfisins sem grunnlínu um þá lágmarksmenntun sem þarf áður en viðkomandi fengi leyfi til þess að vinna með heilsu fólks.
Sem dæmi gæti það verið þannig að viðkomandi aðili þurfi að hafa lokið verklegu námi á heilsunuddbraut áður en hann fengi leyfi til að vinna sem nuddnemi og vera útskrifaður heilsunuddari til að eiga og reka nuddstofu. Einnig mætti viðkomandi hafa lokið sambærilegu námi erlendis frá. Þannig þurfa allir þeir sem starfa við nudd að hafa lokið námi sem nuddarar og fá leyfi frá íslenska ríkinu til þess að starfa sem slíkir og bera ábyrgð á starfsemi sinni.
Með því að lögvernda nudd og gera lágmarkskröfu um menntun til þess að fá starfsleyfi væri líka hægt að koma höggi á þá fjölda mörgu aðila sem vinna við “nudd” í heimahúsum eða öðru ólöglegu atvinnuhúsnæði án þess að gefa upp tekjur fyrir vinnu sína.
Það er því ljóst að ríkið hefur engu að tapa en allt að vinna með því að lögvernda nudd sem heilbrigðisgrein að tilskyldri lágmarksmenntun nuddara. Koma þannig í veg fyrir að ómenntaðir aðilar stofni heilsu nuddþega sinna í hættu og þannig vernda nuddþega frá ofbeldi og stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi.
Ég skora því á næstu ríkisstjórn til þess að beita sér fyrir því að lögvernda nudd sem heilbrigðisþjónustu!
Fyrir hönd FÍHN
Reginn Unason formaður