Lög Félags íslenskra heilsunuddara sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins þann 5. maí 2023.

1. gr. Nafn félagsins, heimili og varnarþing
Nafn félagsins er: Félag íslenskra heilsunuddara, skammstafað F.Í.H.N.
Félagið er landsfélag, en heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.


2.gr. Grundvöllur félagsins og markmið
Félagið starfar á þeim grunni, að félagsmenn veiti heilsutengda þjónustu. Heilsunudd er mikilvægur þáttur í heilsurækt, forvörnum og endurhæfingu. Félagsmenn starfa á faglegum grundvelli og hafa siðareglur félagsins að leiðarljósi.
Markmið félagsins eru:
• Að standa vörð um þann faglega grundvöll, sem félagið er reist á.
• Að vinna að því að heilsunudd sé og verði veigamikill þáttur í heilsurækt.
• Að stuðla að framförum í heilsunuddi og kynna þær meðal félagsmanna og standa fyrir námskeiðum til menntunar og endurmenntunar.
• Að afla stéttinni lögverndar og/eða löggildingar og aukinnar viðurkenningar.
• Að leita samvinnu við samsvarandi félög stéttarinnar erlendis.
• Að útiloka óheiðarlega samkeppni félagsmanna.


3.gr. Félagsmenn
Félagsmenn geta þeir orðið sem:
• Uppfylla kröfur um menntun og starfsþjálfun samkvæmt námsskrá heilsunuddbrauta innan íslenska menntakerfisins skv. lögum um framhaldsskóla, nr 92/2008.
• Hafa stundað annað sambærilegt nám t.d. erlendis og verður það metið í hverju tilviki fyrir sig.
• Geta sýnt fram á að viðkomandi hafi vald á að tjá sig og skilja íslensku, norðurlandamál eða ensku.
Þeir einir mega kalla sig heilsunuddara og nota merki félagsins sem eru samþykktir félagar F.Í.H.N.
Félagsmenn skuldbinda sig til að stunda ábyrga starfsemi og fara eftir viðhlítandi lögum og reglum í landi er gilda hverju sinni.
Félagsmaður skuldbindur sig til að gefa skjólstæðingum sínum allar nauðsynlegar upplýsingar er varða starfsemi þeirra.


4.gr. Fullgildir félagar og árgjöld
Fullgildir félagar í F.Í.H.N teljast þeir sem hafa verið samþykktir sem félagsmenn skv. 3. gr laga þessara og eru skuldlausir við félagið.
Þegar félagsmaður nær 67 ára aldri greiðir hann ½ félagsgjald hvort sem viðkomandi starfar enn þá sem nuddari eða er hættur vegna aldurs. Miða skal við það ár sem 67 ára aldri er náð.
Umsókn um aðild eða breytta aðild að félaginu skal vera skrifleg og skilað með tölvupósti. Þar sem fram kemur nafn, kennitala og útskriftarár.


5.gr. Aðalfundur, boðun hans og dagskrá
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert. Aðalfundur eru löglegur ef rétt er til hans boðað og a.m.k 10 félagsmenn mæta.
Tillögur stjórnar til lagabreytinga þurfa að berast félagsmönnum eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund.
Boða skal til aðalfundar með auglýsingu, tölvupósti eða á annan tryggilegan hátt með minnst þriggja vikna fyrirvara.
Tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu berast stjórn ekki síðar en einni viku fyrir aðalfund.
Þeir fullgildir félagsmenn, sem eru skuldlausir við félagið, hafa kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi.
Ritari og gjaldkeri ásamt einum fundarmanni tilnefndum af formanni skulu kanna kjörgengi og kosningarétt fundarmanna við upphaf fundar.
Á aðalfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:
• Formaður flytur skýrslu um starfsemi félagsins.
• Gjaldkeri flytur skýrslu um fjárhag félagsins og ber upp til samþykktar endurskoðaða reikninga félagsins fyrir umliðið reikningsár.
• Skýrsla frá heilsunuddbrautum innan íslenska menntakerfisins
• Tekin ákvörðun um ársgjöld félagsmanna.
• Tillögur til lagabreytinga, ef fram hafa komið.
• Kosning stjórnar.
• Kosning í siðanefnd
• Kosning tveggja endurskoðenda.
• Önnur mál.


6.gr. Stjórn félagsins, verksvið og boðun funda
Stjórn félagsins skal skipuð sex mönnum: Formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum.
Þá skal kjósa tvo menn í varastjórn félagsins.
Stjórnin fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.
Formaður kallar saman stjórnarfundi þegar hann telur þörf á.
Hver og einn stjórnarmanna getur óskað þess við formann að stjórnarfundur verði haldinn.
Ritari stýrir stjórnarfundum.
Formaður, varaformaður, gjaldkeri og ritari stjórnar eru kosnir til tveggja ára. Þessi er skipt á milli ára þannig að formaður og ritari eru kosin sama árið. Varaformaður og gjaldkeri eru kosin sama ár ári síðar. Aðrir stjórnarmenn til eins árs.


7.gr. Ritari og verksvið hans
Ritari heldur gjörðabækur félagsins og færir í þær allar fundargerðir stjórnar og félags. Ritari stýrir stjórnarfundum.
Gjörðabækur skulu vera undirritaðar af formanni og ritara.
Ritari heldur utan um og uppfærir eftir þörfum; lög og starfslýsingu heilsunuddara.


8.gr. Gjaldkeri og verksvið hans
Gjaldkeri félagsins hefur umsjón með innheimtu á ársgjöldum félagsmanna og öðrum tekjum félagsins. Hann annast reikningshald félagsins og leggur fram löglega endurskoðaða bókhaldsreikninga 15 dögum fyrir aðalfund. Sjóð félagsins skal geyma á vöxtum í banka, sparisjóði eða annarri fjármálastofnun, allt eftir nánari fyrirmælum stjórnar. Gjaldkeri heldur félagatal og skrá um eignir félagsins.


9.gr. Um félagsfundi, boðun, atkvæði og lagabreytingar
Félagsfundi skal halda þegar stjórnin ákveður eða þegar minnst 10 félagsmenn krefjast þess og tilgreina fundarefni.
Aðra fundi í félaginu en aðalfund skal boða með minnst 10 sólarhringa fyrirvara.
Formaður setur félagsfundi og stýrir þeim nema aðalfundi, sem stjórnað er af sérstökum fundarstjóra, sem formaður tilnefnir.
Bera má þá tilnefningu formanns undir atkvæði fundarmanna. Til þess að fundur sé lögmætur, þurfa a.m.k 10 félagsmenn að vera mættir.
Á öllum fundum í félaginu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála nema um sé að ræða lagabreytingar, en til lagabreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða.
Við kosningu stjórnar og annarra trúnaðarmanna félagsins eru þeir réttkjörnir sem flest atkvæði hljóta.


10.gr. Sérstakar starfsnefndir stjórnar
Félagsstjórn er heimilt að skipa starfsnefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum.
Hver nefnd kýs formann og skal leggja niðustöður nefndar fyrir félgsstjórn áður en þær eru kynntar á öðrum vettvangi.


11.gr. Siðanefnd
Á aðalfundi skal kjósa siðanefnd
Í nefndinni skulu kosnir 3 menn til tveggja ára. Ekki skulu ganga úr nefnd nema 2 í einu.
Siðanefnd sér um siðareglur félagsins og skal vera vakandi fyrir því, að ekki falli blettur á starfsheiður stéttarinnar, af völdum félagsmanna.
Ef upp koma mál er varða starfsheiður félagsins og/eða aðila í stjórn, ráðum eða nefndum þess, ber viðkomandi aðila að víkja úr sæti meðan slík mál fá faglega meðferð. Kæra má félagsmann til siðanefndar ef talið er að framferði hans skaði hagsmuni F.Í.H.N. Slík kærumál sem koma til siðanefndar verða tekin til athugunar. Séu málin þess eðlis að mati siðanefndar að þau falli undir löggjafavaldið er þeim vísað áfram til viðeigandi aðila. Niðurstöður athugunar á að birta skriflega þeim félagsmanni sem í hlut á ásamt þeim ráðstöfunum sem kunna að vera gerðar. Niðurstöðurnar skulu einnig kynntar kæruaðilum og stjórn F.Í.H.N. Sérhver félagsmaður sem sætir rannsókn getur skotið máli sínu skriflega til stjórnar innan fjórtán daga frá því honum berst í hendur ákvörðun siðanefndar. Þegar full rannsókn hefur farið fram og hún er viðhlítandi að mati stjórnar, þar á meðal málsmeðferð vegna áfrýjunar, tekur stjórn endanlega ákvörðun og ekki er hægt að áfrýja aftur. Siðanefnd skal senda fundargerð eftir hvern fund til stjórnar F.Í.H.N.


12.gr. Siðareglur og brottvikning
Félagsmanni F.Í.H.N. ber að virða siðareglur félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu, ef hann hefur brotið gegn lögum félagsins eða siðareglum á einn eða annan hátt sýnt af sér brot í starfi eða unnið gegn hagsmunum félagsins einnig ef hann fullnægir ekki lengur skilyrðum laga félagsins. Siðanefnd ber að leggja mál undir stjórn F.í.H.N. fyrst og fá álit þeirra. Hinum brottvikna er þó heimilt að skjóta máli sínu til næsta félagsfundar til endanlegs úrskurðar.


13.gr. Úrsögn og brottvikning úr félaginu
Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt með tölvupósti á fihn@fihn.is Víkja má félagsmanni úr félaginu vegna skulda eða vegna brots á siðareglum félagsins, og er það á valdasviði stjórnar. Félagsmaður, sem ekki greiðir árgjald sitt fellur út af félagsskrá. Til þess að fá inngöngu í félagið á ný þarf viðkomandi að fara í endurmat skv. ákvæðum 3. gr. þessara laga.


14.gr. Reikningsár félagsins,gjalddagi ársgjalda
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Gjalddagi ársgjalda félagsins er ákveðinn af stjórn félagsins hverju sinni.


15.gr. Heiðursfélagar
Heiðursfélaga má kjósa og skal þeim afhent heiðursskjal. Heiður þessi er sá æðsti, sem félagið veitir. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði allra stjórnarmanna. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald.


16.gr. Sjálfstæður rekstur
Heilsunuddari sem vinnur sjálfstætt, skal sækja um leyfi fyrir starfsemi sinni til heilbrigðisyfirvalda í sínu sveitafélagi.


17.gr. Starfsmaður
Stjórn er heimilt að ráða starfsmann sem hún getur falið einstök verkefni stjórnarmanna.



Ákvæði til bráðabirgða og skýringa: Nafni félagsins var breytt á aðalfundi 2004 úr Félagi Íslenskra Nuddara, F.Í.N., í Félag íslenskra heilsunuddara, F.Í.H.N. Þau réttindi, sem félagsmenn höfðu aflað sér í F.Í.N. breytast í engu við breytingu á nafni félagsins.